top of page

Áhugahvetjandi samtal

Áhugahvetjandi samtal  (Motivational Interviewing) byggir á samvinnu í stað innrætingar og leitast er eftir að kalla fram og efla innri áhugahvöt til hegðunarbreytinga og skapa þannig jákvæða breytingu á styttri tíma en almennt er talið mögulegt. Þungamiðja þess er að kanna og leysa tvíbendi hjá skjólstæðingnum og er fagaðili meðvitað stýrandi í að ná því markmiði. En þó aðferðin sé stýrandi eru sjálfstæði og valfrelsi skjólstæðings virt og frekar borist með viðnámi en gegn því. Öll samskipti minna á dans frekar en glímu. Mikilvægt einkenni áhugahvetjandi samtals er einnig að forðast ákveðnar leiðir í samtalinu, eins og siðapredikanir, sem eru til þess fallnar að ýta undir mótþróa og draga úr vilja til breytinga. Borin er virðing fyrir sjálfstæði einstaklingsins, rétti hans og getu til að taka eigin ákvarðanir innan viðeigandi marka hverju sinni.

 

Hinn sanni kraftur Áhugahvetjandi samtals hvílir í andanum (spirit) en ekki í tækni sem er frekar notuð til að beina samtalinu að markmiðshegðun. Andinn er þannig jafn mikilvægur og tónlist við texta lags, án tónlistar (andans) er textinn (tæknin) aðeins orð á blaði. Ef Áhugahvetjandi samtal er sérstök nærvera við einstaklinginn (a way of being with people), þá hlýtur andi samtalsins að byggja á því að skilja og upplifa hið „mannlega eðli“ sem hefur áhrif á að fólk er eins og það er. Til þess að hjálpa fagaðilum að skilja og ná anda Áhugahvetjandi samtals er lagt upp með þrjá grundvallarþætti; samvinnu, framköllun (á áhugahvöt) og stuðningi við sjálfstæði.

 

Samvinna (collaboration). Til að skapa skilyrði fyrir þá hegðunarbreytingu sem stefnt er að byggja samskipti Áhugahvetjandi samtals á jafnræði milli tveggja einstaklinga sem báðir búa yfir mikilvægri vitneskju í tengslum við tiltekið vandamál. Samvinna byggir á trausti og stuðningi til að drifkraftar skjólstæðings nái að blómstra án þvingana eða fordóma. Traustið gefur fagaðila meiri möguleika á að öðlast dýpri skilning á sjónarmiðum og gildum skjólstæðings án þess er hætta á að heildarmyndin komi ekki fram.

 

Framköllun (evocation). Hlutverk fagaðila er ekki að innræta eða afhjúpa. Skjólstæðingurinn býr sjálfur yfir lausnunum og fagaðili leitast við að kalla þær fram og greiða fyrir birtingu þeirra. Til þess þarf að finna og vekja innri áhugahvöt til hegðunarbreytinga hjá skjólstæðingi.

 

Sjálfstæði (autonomy). Áhugahvetjandi samtal leitast við að styðja sjálfstæði skjólstæðings. Það birtist í virðingu fyrir vali hans og frelsi til ákvörðunartöku og trú á getu hans til breytinga. Ábyrgð á breytingum liggur ávallt hjá skjólstæðingnum sem hefur frjálst val um að nýta sér ráð og upplýsingar fagaðilans.

 

Áhugahvetjandi samtal er notað bæði með fullorðnum og unglingum sem gætu verið í þörf fyrir breytingar á lífsstíl eða hegðun. Sumir hafa hugsanlega ekki komið auga á þörf fyrir breytingar eða eru alfarið á móti þeim, á meðan aðrir hafa íhugað breytingar en eru á báðum áttum. Aðferðin sem hér er um að ræða miðar að því að virkja vilja einstakling til jákvæðra breytinga á lífsstíl og hegðun.

 

Reynsla þeirra sem hafa lært og notað áhugahvetjandi samtal er að vinnan verður skemmtilegri og árangursríkari, sem getur einnig dregið úr líkum á kulnun í starfi.

bottom of page